Aðalfundur Skotíþróttafélags Kópavogs 2020

Þann 27.febrúar sl. fór fram aðalfundur Skotíþróttafélags Kópavogs í húsnæði félagsins Skálaheiði. Mæting var góð en rétt um 30 félagar voru mættir. Farið var yfir ýmis mál, meðal annars ársreikninga félagsins sem voru samþykktir samhljóma. Fjárhagsstaða félagsins er með ágætum og stefnt er á ýmis verkefni í krafti þess. Ákveðið hefur verið að fara í að endurnýja ljósabúnað í 50m.sal, en einn fundargesta tæpti einmitt á mikilvægi þessa, til að halda aðstöðunni samkeppnishæfri fyrir íþróttafólk í fremstu röð skotíþrótta.

Ný stjórn var kjörinn, en hún var að mesta óbreytt milli ára. Stjórn, fyrir starfsárið 2020-2021 skipa:

  • Friðrik Goethe, formaður
  • Mörður Áslaugarson, gjaldkeri
  • Þórir Ingvarsson, ritari
  • Hálfdán R.Guðmundsson, stjórnarmaður
  • Sigurður Ingi Jónsson, stjórnarmaður
  • Sigurveig Helga Jónsdóttir, varamaður
  • Bjarki Þór Kjartansson, varamaður, sem kom nýr inn.

Breki Atlason fór úr stjórn, og eru honum þökkuð sérstaklega fyrir vel unninn störf. Breki er einn þeirra dýrmætu SFK félagsmanna sem halda félaginu gangandi í sjálfboðaliðastarfi.

Hið leiðinlegasta mál kom upp á síðustu dögum ársins 2018, sem endaði með því að þann 3.janúar 2019 var félagsmanni vikið úr félaginu fyrir endurtekin brot á öryggisreglum félagsins. Félagsmaðurinn reyndist afar ósáttur við brottvikningu og í kjölfarið var þess leitað að sætta manninn. Það tókst ekki. Fór svo að félaginu barst erindi frá lögmanni mannsins, þar sem þess var farið á leit að brottvikningu yrði skotið til aðalfundar, en þangað má áfrýja brottvikningu, skv.lögum félagsins. Eftir upplestur á erindi félagsmannsins fyrrverandi og umræður aðalfundar var málinu skotið til atkvæðagreiðslu. Allir fundarmenn samþykktu brottvikningu mannsins og hefur honum og lögmanni hans verið tilkynnt um niðurstöðuna.

Rætt var um loftræstingarmál, en eins og margir félagsmenn vita þá er loftræsting félagsins á síðustu metrunum. Eftir að hafa farið í læknisrannsóknir þá er ljóst að a.m.k.einhverjir skotstjórar eru með aukið gildi blýs í blóði, sem er afar hættulegt. Því miður hefur bærinn ekki enn svarað hvernig standa skuli að endurnýjun lofræstingar. Um er að ræða mikinn kostnað, metið á um 50 milljónir, og skiljanlegt að erfitt sé að finna aur í slíkt. Hinsvegar er ljóst að nú fer blýmengað loft út á skólalóð Kársnesskóla og í lungu félagsmanna; við slíkt verður ekki unað! Það er því forgangsmál að koma þeim málum í lag.

Spurt var um tilnefningu félagsins til íþróttamanns ársins. Fram kom að í upptalningu hafi vantað mótaniðurstöður og íslandsmet hjá Jóni Þór Sigurðssyni og er hann hér með beðinn afsökunar á því. Einnig kom ekki fram í samantekt um frábæra frammistöðu BR50 liða, sérstaklega Jóns Inga Kristjánssonar, Davíðs Braga Gígja og Guðbjargar Mörtu Pétursdóttur. Kepptu þau öll fyrir hönd SFK á móti í Þýskalandi og lönduðu íslandsmeistaratitlum.

Ljóst er að starf Skotíþróttafélags Kópavogs er í miklum blóma, afrek félagsmanna mörg en umfram allt er gott að vera í félaginu. Stjórn vill þakka traustið sem henni er sýnt og þakkar félagsmönnum öllum fyrir samheldni og frábært starf á árinu. Áfram Skotkóp!