Opna Vesturrastamótið í staðlaðri skammbyssu fór fram 2.desember 2019 og fór frábærlega fram. 24 keppendur tóku þátt, sem telst frábær mæting. Mikið af nýjum skotmönnum, sem ekki hafa keppt fyrr, tóku þátt. Er það afar ánægjulegt enda nauðsynlegt að endurnýjun sé í keppnisliðum félaganna.
Veiðiverslunin Vesturröst styrki mótið með glæsilegum hætti en í vinninga fyrir mótið voru Deerhunter úlpa fyrir fyrsta sæti, ALPS outdoor bakpoki fyrir annað sæti og Deerhunter Muflon hanskar fyrir þriðja.
Ívar Ragnarsson, SFK, sigraði á mótinu með 554 stig, Friðrik Goethe varð annar með 544 stig en Jón Þór Sigurðsson, þriðji með 535 stig. SR liðarnir Karl Kristinsson og Ólafur Gíslason fylgdu á hæla með 517 og 508 stig, í fjórða og fimmta sæti. Skorið hefur farið hratt upp á við í skammbyssugreinunum síðustu ár, enda æfingar verið teknar fastari tökum
Mótið var afar skemmtilegt og stemmingin frábær. Þótti mótshöldurum ljóst að mikil þörf sé fyrir skemmtimót sem þetta – þar sem nýliðar geti spreytt sig í afslappaðri stemmingu en hefðbundin ISSF mót bjóða upp á, auk þess að reyndari skotmenn fái möguleika á að taka góða æfingu fyrir fyrsta landsmót vetrarins, sem fer fram eftir tæpa viku í Skotfélagi Reykjavíkur.